Lögreglan á Ítalíu lagði hald á flugskeyti og ýmis önnur háþróuð vopn við húsleit hjá hægriöfgasamtökum í nokkrum borgum í norðanverðu landinu í gær. Flugskeytið er sagt koma frá katarska hernum en rannsóknin beinist að þátttöku ítalskra öfgamanna í átökunum í Austur-Úkraínu.
Þrír voru handteknir og lagt var hald á áróður nýnasista í aðgerðum undir stjórn sérsveitar lögreglunnar í Tórínó, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Mikið magn sjálfvirkra vopna og skotfæra fannst einnig.
Flugskeytið sem fannst er talið af gerðinni Matra Super 530 F, framleitt í Frakklandi. Lögreglan segir að flugskeytið sé fullkomlega virkt og hafi verið notað af her Katars.
Rannsóknin hófst fyrir um ári. Hún beinist að ítölskum hægriöfgahópum sem hafa tekið þátt í uppreisn sem rússnesk stjórnvöld styðja í Donbass-héraði, að sögn AP-fréttastofunnar. Um tíu þúsund manns hafa fallið í átökum í Austur-Úkraínu frá því í apríl árið 2014.
Fundu flugskeyti í fórum ítalskra hægriöfgamanna
Kjartan Kjartansson skrifar
