Erlent

Reyna að bjarga kjarnorkusamningnum við Íran

Kjartan Kjartansson skrifar
Hunt er á meðal utanríkisráðherra sem sitja fund utanríkismálaráðs leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Hunt er á meðal utanríkisráðherra sem sitja fund utanríkismálaráðs leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Vísir/EPA
Utanríkisráðherra Bretlands segir smáglufu enn til staðar til að bjarga kjarnorkusamningi heimsveldanna við Íran. Stjórnvöld í Teheran hóta því að halda áfram kjarnorkuáætlun sinni tryggi Evrópuríki ekki að Íranir geti stundað viðskipti við heimsbyggðina.

Kjarnorkusamningurinn sem heimsveldin gerðu við Íran árið 2015 hefur verið á heljarþröm frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði Bandaríkin frá honum í fyrra og lagði viðskiptaþvinganir aftur á Íran. Síðan þá hefur spenna á milli ríkjanna farið vaxandi.

Íranir hafa brugðist við viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna með því að auðga úran meira en þeim er heimilt samkvæmt ákvæðum samningsins. Markmiðið hefur verið að þrýsta á Evrópuríki að halda samningnum lifandi.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, segir að Íranir séu enn um ári frá því að geta þróað kjarnorkusprengju.

„Hún er að lokast en það er enn smá glufa til að halda samningnum lifandi,“ sagði hann við fréttamenn á fundi utanríkisráðherra í Brussel, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Markmið fundarins er að móta stefnu um hvernig hægt sé að lægja öldurnar á milli Írana og Bandaríkjamanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×