Enski boltinn

Býður fimm milljóna króna verðlaunafé fyrir Lucci

Benedikt Bóas skrifar
Daniel Sturridge og Lucci.
Daniel Sturridge og Lucci. Mynd/Instagram/danielsturridge
Daniel Sturridge, fyrrverandi leikmaður Liverpool, er tilbúinn að gera hvað sem er til að fá hundinn sinn, Lucci, aftur. Brotist var inn í sumarhús Sturridge í Los Angeles þar sem kappinn er í fríi og ýmsu stolið, þar á meðal hinum krúttlega Lucci sem er af Pomeranian-kyni.





Sturridge birti myndband af sjálfum sér í húsinu þar sem sést brotin glerhurð og er augljóst að framherjinn er í miklu uppnámi. „Ég borga hvað sem er fyrir að fá hann aftur. Hver gerir svona? Brýst inn í hús og stelur hundi. Mér er fúlasta alvara. Ég geri hvað sem er til að fá hundinn minn aftur,“ segir hann meðal annars.

Lucci er að sjálfsögðu með sinn eigin Insta gram-reikning sem nokkur þúsund manns fylgja, enda einn krúttlegasti hundur í eigu knattspyrnumanns. Þar sjást þeir félagar á ferð og flugi um allan heim og einnig þar sem hann brosir í myndavélina. Sturridge birti svo annað myndband þar sem hann lofar 30 þúsund pundum, um fimm milljónum króna, í verðlaunafé fyrir hundinn. Hann segist í kjölfarið ætla að selja sumarhúsið sitt.





Lögreglunni í Los Angeles barst tilkynningin um hálf tvö um nóttina en Sturridge og félagar hans höfðu farið út um kvöldið að skemmta sér. Þegar hann kom til baka var allt á tjá og tundri í sumarhúsinu hans, töskur horfnar af efri hæðinni og hundurinn sömuleiðis.

Lögreglan segir að þrír menn séu grunaðir um innbrotið en samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs í gær sjást mennirnir á vappi fyrir utan húsið hans Sturridge á sama tíma og innbrotið átti sér stað. Þjófarnir snertu ekki á úrasafni Sturridge sem er metið á yfir 300 þúsund pund.

Daniel Sturridge er nú fyrrverandi leikmaður Liverpool.Getty/Andrew Powell



Fleiri fréttir

Sjá meira


×