Körfubolti

Los Angeles Lakers nældi í yngri bróðir Giannis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antetokounmpo bræðurnir allir samankomnir í sínu fínasta.
Antetokounmpo bræðurnir allir samankomnir í sínu fínasta. Mynd/Instagram/kostas__ante13
Kostas Antetokounmpo er kominn til Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta en félagið ákvað að semja við hann eftir að leikmaðurinn missti samning sinn hjá Dallas Mavericks.

Kostas Antetokounmpo er 21 árs gamall og yngri bróðir Giannis Antetokounmpo sem var kosinn mikilvægasti leikmaður NBA deildarinnar á síðustu leiktíð.

Kostas er þremur árum yngri en Giannis en Kostas er 208 sentímetrar á hæð eða þremur sentimetrum minni en eldri bróðir sinn.

Kostas Antetokounmpo kom bara við sögu í einum leik hjá Dallas Mavericks á síðustu leiktíð og skoraði samtals tvö stig á ellefu mínútum en lék þess í dag með NBA-G deildarliðinu Texas Legends. Þar var hann með 10,6 stig og 6,1 frákast að meðaltali í 40 leikjum.

Það er ljóst að Kostas er enginn Giannis Antetokounmpo sem var með 27,7 stig, 12,5 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik með liði Milwaukee Bucks á síðustu leiktíð.



 

Lakers gerir svokallaðan „two-way deal“ við Kostas Antetokounmpo og líta því á hann sem verkefni. Hann mun því væntanlega spila eitthvað áfram í NBA-G deildinni en lið Lakers þar er South Bay Lakers.

Giannis Antetokounmpo hefur tekið gríðarlegum framförum á hverju tímabili með Milwaukee Bucks en á fyrsta tímabilinum, 2013-14, var Giannis með 6,8 stig, 4,4 fráköst og 1,9 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann hefur nú hækkað meðalskor sitt á fimm tímabilum í röð eða úr 6,8 stigum í leik (2013-14) í 12,7 (2014-15), í 16,9 (2015-16), í 22,9 (2016-17), í 26,9 (2017-18) og loks upp í 27,7 stig í leik á síðustu leiktíð.

Þriðji bróðirinn og sá elsti, Thanasis Antetokounmpo, er nú orðinn liðsfélagi Giannis hjá Milwaukee Bucks. Hann lék áður með Panathinaikos í Grikklandi í tvö ár.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×