Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð út í dag þegar hún sótti mann á Fimmvörðuháls sem var slasaður á fæti. Maðurinn var ekki hættulega slasaður en átti erfitt með gang.
Mjög vel gekk að komast að manninum á Fimmvörðuhálsi og var aldrei nein hætta á ferð, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Maðurinn fékk far með þyrlunni og var skilinn eftir í Básum ásamt eiginkonu sinni.
Um var að ræða fyrsta útkall nýrrar þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GRÓ.
Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út rétt eftir klukkan þrjú í dag vegna göngumannsins á gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls. Maðurinn var staddur ofarlega á Morinsheiði við Heljarkamb ásamt samferðafólki.
Aðstæður til burðar á sjúklingum á þessum slóðum geta verið erfiðar þar sem gönguleiðin liggur um kletta og bratta hryggi.
