Jóhannes Karl Sigursteinsson, nýr þjálfari KR, stýrir liðinu í fyrsta sinn þegar það tekur á móti Þór/KA í seinni undanúrslitaleiknum í Mjólkurbikar kvenna í dag. Selfoss vann Fylki, 0-1, í fyrri undanúrslitaleiknum í gær.
Jóhannes var ráðinn þjálfari KR á miðvikudaginn. Hann tekur við liðinu af Bojönu Besic sem sagði starfi sínu lausu fyrr í þessum mánuði. Í millitíðinni stýrði Ragna Lóa Stefánsdóttir KR í tveimur leikjum í Pepsi Max-deildinni sem báðir unnust.
KR hefur tíu sinnum komist í bikarúrslit, síðast fyrir átta árum. KR-ingar hafa fjórum sinnum orðið bikarmeistarar; 1999, 2002, 2007 og 2008.
Þór/KA hefur aðeins einu sinni komist í bikarúrslit. Það var árið 2013 þegar liðið tapaði fyrir Breiðabliki, 2-1.
Tæpur mánuður er síðan KR og Þór/KA mættust í Pepsi Max-deildinni. Þann 23. júní gerðu þau 2-2 jafntefli á Þórsvellinum. Karen María Sigurgeirsdóttir tryggði Akureyringum stig með því að jafna á 88. mínútu.
Leikur KR og Þórs/KA hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þá verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.
