Í vikunni sendu samtökin Náttúrufræðistofnun beiðni til Náttúrufræðistofnunar að rannsaka steingervinga sem heimamenn í Árneshreppi fundu á svæði þar sem umrætt deiliskipulag og framkvæmdaleyfi hafa heimilað framkvæmdir við vegagerð frá væntanlegu iðnaðarsvæði við Strandarfjöll vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.
Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, segir jarðfræðinga stofnunarinnar hafa farið yfir málið og ákveðið hafi verið að fara á staðinn eftir helgi og kanna þessa steingervinga betur. Meðan ekki er vitað um nákvæma staðsetningu þeirra og umfang getur Jón Gunnar lítið tjá sig um hvort þetta komi til með að hafa áhrif á framkvæmdir Vesturverks á svæðinu.

Snæbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður í náttúruverndarsamtökunum og jarðfræðingur, tjáði sig um málið í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær, en hann sagði ótækt að framkvæmdir á svæðinu raski steingervingum án þess að Náttúrufræðistofnunin fái tækifæri til að rannsaka þá.
Sagði Snæbjörn að um væri að ræða svokallaðar trjáholur. „Heimamenn hafa vitað af þessu og bent okkur á svokallaðar trjáholur, sem eru för eftir trjáboli, þegar svæðið var virkt fyrir tíu milljónum ára þá runnu þarna hraun og þarna hefur hraun runnið yfir fórnan skóg og hulið trjábolina sem síðan hafa eyðst og þeir skilið eftir holrými í hrauninu.“
Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks, segir í samtali við vef Bæjarins besta í dag að hann eigi ekki von á að þessi steingervingafundur muni trufla framkvæmdir við vegagerð í sumar.