Fylgdarvél af gerðinni Pilatus PC-12 fylgdi Spitfire-vélinni til landsins. Um borð í henni voru, auk flugmanna; leiðangursstjóri, flugvirki og kvikmyndatökulið. Lesa má um leiðangurinn og sögu vélarinnar með því að smella hér.
Upphaflega hafði verið ráðgert að fljúga vélunum frá Skotlandi yfir Atlantshafið á þriðjudag en vont veður setti þau áform úr skorðum. Það viðraði hins vegar betur í morgun og gátu því Spitfire-vélin og Pilatus-fylgdarvélin hafið sig til flugs frá flugvellinum í Lossiemouth í Norður-Skotlandi klukkan 10:35 í morgun. Fyrsti viðkomustaður var flugvöllurinn í Vogum í Færeyjum þar sem lent var eftir um tveggja klukkustunda flug. Þar var fyllt á eldsneytistanka vélanna og að því loknu flogið áfram til Reykjavíkur.
Þessi tiltekna Spitfire-vél kallast Silver Spitfire, smíðuð árið 1943 af Vickers Supermarine í Castle Bromwich við Birmingham. Hún tók þátt í 51 loftorrustu í síðari heimsstyrjöld, þar á meðal innrásinni í Normandí.
Samkvæmt upplýsingum frá Isavia liggur ekki fyrir á þessari stundu hvort almenningi gefst færi á að skoða þennan sögufræga grip. Þegar tekin verður ákvörðun um það mun Vísir greina frá því.
Fylgjast má með leiðangrinum á Silverspitfire.com og nánast má fræðast um hinar sögufrægu Spitfire-orrustuvélar með því að smella hér.

