Bresk lögregluyfirvöld hafa ákært 17 ára strák fyrir tilraun til manndráps.
Táningurinn er grunaður um að hafa kastað sex ára barni fram af 10. hæð listasafnsins Tate Modern í Lundúnum á þriðja tímanum á sunnudag. Honum verður gert að mæta fyrir dómara í dag að því er fréttastofa AP greinir frá.
Í fyrstu var drengnum vart hugað líf en lögreglan í Lundúnum greindi fjölmiðlum skömmu síðar frá því að hann væri ekki lengur í lífshættu en drengurinn væri engu að síður alvarlega slasaður eftir fallið.
Táningnum er gefið að sök að hafa kastað drengnum skyndilega fram af útsýnispalli nýlistasafnsins en það sem að öllum líkindum varð drengnum til lífs er að hann lenti á þaki fimmtu hæðarinnar.
Ekki er vitað hvað táningnum gekk til þegar hann hrinti drengnum fram af byggingunni því ekkert bendir til þess að þeir hafi þekkst.
Drengurinn er franskur og var á ferðalagi með fjölskyldu sinni í Lundúnum.
Tate Modern er leiðandi safn í nútímalist en um sex milljónir sækja það heim árlega. Það stendur við árbakka Thames í hjarta Lundúna.

