Göngufólkið sem leitað var að á Hornströndum í gærkvöldi fannst skömmu eftir miðnætti í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fréttastofu barst frá Landsbjörgu í gær. Fólkið er komið til Ísafjarðar.
Klukkan tíu í gærkvöldi voru björgunarsveitir á Vestfjörðum kallaðar út vegna leitar að göngufólki sem ekki hafði skilað sér á náttstað á Hornströndum. Björgunarskipin Kobbi Láka og Gísli Jóns fóru af stað með leitarhópa og voru komin í botn Hrafnfjarðar um miðnætti, þar sem áætlað var að fara í land og leita að fólkinu fótgangandi.
Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út og var hún í þann mund að fara að hefja sig til flugs um 20 mínútur yfir miðnætti með björgunarsveitarfólk og sporhund innanborðs, þegar áhöfn björgunarskipsins Kobba Láka náði sambandi við fólkið á VHF rás 16, sem er neyðar og uppkallsrás.
Þá kom í ljós að fólkið var heilt á húfi og hafði að öllum líkindum lent í ógöngum í mikilli þoku sem var á svæðinu í gærkvöldi.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu gisti fólkið á Ísafirði í nótt.
Gönguhópurinn á Hornströndum fundinn heill á húfi

Tengdar fréttir

Leita að týndum gönguhóp á Hornströndum
Hópar björgunarsveitafólks hefur verið sent á Hornstrandir til þess að leita að týndum gönguhóp.