Erlent

Lögreglan í Noregi skaut mann til bana

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu.
Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu. Vísir
Maður á sjötugsaldri var í kvöld skotinn til bana af lögreglumönnum í Noregi. Atvikið átti sér stað í smábænum Jaren, norðvestur af Osló.

Heilbrigðisstarfsfólk sem kom til mannsins í heilsufarsvitjun kallaði eftir aðstoð lögreglu í hádeginu í dag.

Eftir um átta klukkustunda samningaviðræður við manninn færðist hasar í leikinn og lögregla þurfti að hleypa af byssuskoti með þeim afleiðingum að maðurinn lést. Þetta kemur fram á vef norska fréttastofunnar TV2. 

Ógnaði lögreglu með sveðju

Pål Erik Teigen, lögreglustjóri, sagði í samtali við VG fréttastofuna, lögreglumenn ekki hafa óttast að atvikið væri svo alvarlegt þegar þeir fóru á vettvang. Enda lögregla er oft kölluð til í slíkum heilsufarsvitjunum.

Þegar á staðinn var komið fór maðurinn að ógna lögreglu með sveðju og sló til lögreglumanna með þeim afleiðingum að einn lögreglumannanna fékk lítinn skurð við augað.

Réðst á lögreglumann með keðjusög

„Við reyndum að ná sambandi við manninn en það var ekki hægt að ná sambandi við hann,“ sagði Teigen.

Lögreglan á vettvangi kallaði eftir frekari liðsauka þar á meðal sérsveitina.

Eftir fjölda tilrauna til að reyna að ná til mannsins meðal annars með notkun piparúða og raflostsvopn ógnaði maðurinn lögreglumanni með keðjusög og var maðurinn skotinn í kjölfarið klukkan 19:45 að staðartíma eða tæpum átta klukkustundum eftir að lögregla kom á vettvang. Hann var úrskurðaður látinn á vettvangi. Málið er í rannsókn.

Teigen segir lögreglu ekki vita hvað manninum gekk til en vitað er að maðurinn var mikill einfari. Jafnframt kemur fram að hann hafi áður komið við sögu lögreglu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×