„Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er verið að færa hluta skipulagsvalds sveitarfélaganna yfir til stjórnunar- og verndaráætlana sem binda hendur sveitarfélaganna hvað varðar uppbyggingu innviða og vernd og nýtingu á umræddum svæðum. Með öðrum orðum er verið að skerða skipulagsvald sveitarfélaganna,“ segir í bókun Skagfirðinga, sem send var Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

„Í því felast meðal annars mikilvægir hagsmunir fyrir atvinnustarfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði og getur kallað á ýmis konar breytingar varðandi umferð, girðingar, nýtingu afréttareignar innan þjóðgarðs og aðra þætti sem tengist valdheimildum sveitarfélagsins.“
Þá taki tillaga um afmörkun þjóðgarðsins ekki mið af aðalskipulagi sveitarfélaga.
„Mörk þjóðgarðs virðast fyrst og fremst eiga að ráðast af eignarhaldi eða ráðstöfunarrétti ríkisins á landi, það er þjóðlendum, en ekki sjálfstæðu mati á þörf fyrir friðun einstakra landsvæða á faglegum forsendum þar sem tekið er ríkt tillit til fjölmargra hagaðila sem þyrftu að koma að málinu."

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar áréttar jafnframt fyrri kröfu sína um að teknar verði saman upplýsingar um stöðu annarra þjóðgarða, rekstrargrundvöll þeirra og hvernig mat heimamanna á hverjum stað fyrir sig er á að til hafi tekist, áður en lengra er haldið áfram með undirbúning þjóðgarðs á miðhálendinu,“ segir meðal annars í bókun Sveitarfélagsins Skagafjarðar.