Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Space Agency en þar segir að Daniel Leeb, framkvæmdastjóri ISA, hafi leitt alþjóðlegt teymi rannsakenda með fjölbreytta sérþekkingu og frá ólíkum bakgrunni. Hópurinn hafi farið á afskekktan stað í Grímsvötnum á Vatnajökli og dvalið í sex daga í skála með einu herbergi og kojum. Staðsetningin hafi orðið fyrir valinu vegna þess að þar megi finna áþekkar aðstæður og þær sem búast má við að finna megi á heimskautum plánetunnar Mars.

Búningurinn var hannaður af Lye ásamt samstarfsaðilum við Rhode Island School of Design í samstarfi við NASA. Búningurinn er svokallaður þjálfunarbúningur sem ætlaður er að hjálpa geimförum og vísindamönnum sem vinna að því að koma mönnuðu geimfari til Mars. Er búningnum ætlað að vera eins líkur þeim geimbúningum sem fyrirséð er að notaðir verði við könnun á Mars. Búningurinn er um 20 kíló, um það bil jafn þungur og reiknað er með að geimbúningar sem notast eigi við á Mars muni vera.

Með í för var einnig Benjamin Pothier frá ESA, evrópsku Geimvísindastofnunni, Helga Kristín Torfadóttir, doktorsnemi í eldfjallafræði við Háskóla Íslands auk annarra sem aðstoðuði við leiðangurinn sem meðal annars kostaður var af United Airlines, Arctic Trucks og Iceland Pro Guides.
