Leikmenn Real Madrid keppast við að reyna að sannfæra Neymar um að færa sig um set til Spánar. Neymar hefur verið ítrekað orðaður í burtu frá Paris Saint-Germain í sumar.
Yfirmaður íþróttamála hjá PSG hefur sagt að Neymar sé falur fyrir rétta uppphæð og eiga bæði Barcelona og Real Madrid í samningaviðræðum um möguleg kaup á Brasilíumanninum.
Endurkoma til Barcelona hefur verið talin líklegust en keppinautarnir í Real hafa gert sig líklega að næla í Neymar undan farið, sérstaklega í ljósi þess að samband þeirra sem ráða hjá Barcelona og PSG er ekki sérlega gott eftir söluna á Neymar fyrir tveimur árum.
Samkvæmt ESPN hafa leikmenn Real Madrid verið duglegir við að hringja í Neymar og láta hann vita að honum verði tekið með opnum örmum á Santiago Bernabeu.
Það er hins vegar talið ólíklegt að Real geti fundið 222 milljónir evra í rassvasanum til þess að borga fyrir Neymar.
Til þess að bæta aðeins í peningasjóðinn þyrfti Real að ná að losa sig við Gareth Bale og James Rodriguez.
Keppni í La Liga hefst um næstu helgi þar sem Real Madrid sækir Celta Vigo heim í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 laugardaginn 17. ágúst.
