Erlent

Stórt berghlaup í Raumsdal í Noregi

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjallið Mannen í Noregi árið 2014. Mikil gliðnun á sér stað í fjallinu.
Fjallið Mannen í Noregi árið 2014. Mikil gliðnun á sér stað í fjallinu. Vísir/EPA
Talið er að stórt berghlaup hafi fallið úr fjallgarðinum Veslemannen í Raumsdal á norðvesturströnd Noregs í kvöld. Jarðfræðingar segja að bíða þurfi fram til birtingar til að meta hversu mikið berg hafi skriðið fram en svo virðist sem að stórt „svarthol“ sé ofarlega í fjallinu.

Mikil gliðnun hefur átt sér stað í Veslemannen undanfarin ár og ítrekað hefur verið varað við berghlaupi þar þegar úrkoma er mikil, þar á meðal í sumar. Norska ríkisútvarpið (NRK) segir að stór skriða hafi hlaupið úr fjallinu um klukkan 21:00 að staðartíma, um klukkan 19:00 að íslenskum tíma.

Lars Harald Blikra, jarðfræðingur hjá Vatna- og orkustofnun Noregs (NVE), segir við NRK að gliðnunin í fjallinu hafi færst mjög í aukana í kvöld. Hluti þess hafi skriðið fram um tíu metra á einum sólarhring. Svo virðist sem að um fimmtíu metra hár klettur sem nefnist Spíran hafi hrunið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×