„Falsfréttir eða upplýsingaóreiða eiga oft greiðari leið að huga fólks. Þær byggja oft á tilfinningum, eru oft einfaldar og fela ekki í sér flóknar útskýringar sem því miður eru oft hluti að raunveruleikanum. Það er auðvelt að dreifa þeim en getur haft gríðarleg áhrif á alla stjórnmálaumræðu í landinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Þjóðaröryggisráðs á fundi um fjölþáttaógnir sem fram fór í Norræna húsinu í morgun.
Hún segir samfélagsmiðla og gervigreind markvisst notuð til að dreifa slíkum fréttum.
„Í pólitískum kosningum höfum við séð upplýsingum dreift með markvissum hætti til tiltekinna hópa. Samfélagsmiðlar og netið hafa breytt í grundvallaratriðum grafið undan starfsemi hefðbundinna fjölmiðla sem eiga undir högg að sækja og erfitt er að gera greinarmun á því hvenær við erum að nýta okkur hefðbundna fjölmiðla og hvenær þetta eru bara einmiðlar,“ segir Katrín.

Þarf að kortleggja stöðuna hér á landi
Á fundum var einnig rætt um netárásir og áróður sem miðaður er að ákveðnum hópum gegnum samfélagsmiðla. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar segir mikilvægt að kanna þennan vand heildrænt.„Það vantar hér á landi að kortleggja stöðuna. Þetta mál er áberandi í stjórnmálaumræðu í löndunum í kringum okkur. Við sjáum að reynt hefur verið að hafa áhrif á kosningar með áróðri og falsfréttum t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum,“ segir Elfa.
Elfa segir jafnframt að mikilvægt að almenningur, fyrirtæki og stofnir séu meðvituð um þær ógnir sem steðji að á netinu.
„Það er mikilvægt að efla samstarf við samfélagsmiðla og leitarvélar. Þá þarf að auka þekkingu fólks á þessum málum, auka miðlalæsi og gagnrýna hugsun,“ segir Elfa.
Nýlegt dæmi um falsfréttir á vefnum er falsfrétt um Bitcoin og tenging við vefsíður sem ekki eru til.
„Þarna er verið að blekkja fólk og búa til vefsíður sem líta út eins og íslenskir fjölmiðlar. Þegar farið er inná þetta er eitthvað allt annað á bak við þær,“ segir Elfa.