Erlent

Hætta rannsókn á fjármálum Brexit-sinna

Kjartan Kjartansson skrifar
Arron Banks, umdeildi auðkýfingurinn sem fjármagnaði Leave.EU.
Arron Banks, umdeildi auðkýfingurinn sem fjármagnaði Leave.EU. Vísir/EPA
Breska lögreglan hefur fellt niður sakamálarannsókn á fjármálum Leave.EU, samtaka sem börðust fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016. Yfirkjörstjórn Bretlands vísaði máli samtakanna áfram vegna gruns um að þau hefðu brotið kosningalög.

Í skýrslu til saksóknara segir lögreglan í London að þó að ljóst sé að Leave.EU hafi tæknilega brotið kosningalög varðandi skýrslu sem þau skiluðu um útgjöld sín sé ekki nægilegar sannanir fyrir hendi til að réttlæta frekari sakamálarannsókn, að því er segir í frétt Reuters.

Kjörstjórn Bretlands sektaði Leave.EU um 70.000 pund fyrir að hafa eytt meiru í kosningabaráttuna en leyfilegt var samkvæmt kosningalögum án þess að gefa það upp í maí í fyrra. Sektin jafnaði þá hæstu sem kjörstjórnin hefur lagt á.

Arron Banks, auðkýfingurinn sem stýrði Leave.EU, segir hópinn ætla að krefjast rannsóknar á málinu gegn honum og kallaði eftir því að formaður kjörstjórnar segði af sér eftir að rannsókn Londonlögreglunnar var felld niður.

Önnur rannsókn stendur enn yfir á meintum brotum Leave.EU hjá Glæpastofnun Bretlands, einni æðstu löggæslustofnun landsins. Þá rannsakar lögreglan í London enn uppgjör tveggja annarra hópa sem skipulögðu kosningabarátt fyrir útgöngu, Vote Leave og BeLeave.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×