Arabaþjóðirnar hafa fordæmt nýja áætlun Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels sem lofar því nú að innlima hluta Vesturbakkans inn í Ísrael.
Netanjahú greindi frá þessum fyrirætlunum sínum í gær en kosningar eru fram undan í Ísrael og á meðal loforða hans er að hluti Jórdaníu dals og norðurhluti Dauðahafsins verði skilgreindir sem landsvæði í Ísrael.
Ísraelar hafa hertekið Vesturbakkan síðan 1967 en hafa hingað til ekki gengið svo langt að innlima landsvæðið.
Stjórnvöld í Jórdaníu, Tyrklandi og Sádi-Arabíu hafa þegar fordæmt loforðið og palestínskur erindreki talar um stríðsglæp sem myndi gera allar vonir um frið á svæðinu að engu.

