Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út til í kvöld til að aðstoða lögreglu við leit. Þetta staðfestir Davíð Már Björgvinsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við Vísi.
Um áttatíu björgunarsveitarmenn ásamt leitarhundum tóku þátt í leitinni. Ekki fengust upplýsingar um það hverjum er leitað að eða hvort leitin tengist einstaklingi sem lögregla á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í vikunni.
Björgunarsveitarmenn voru við það að ljúka störfum í bili nú skömmu eftir miðnætti, að sögn Davíðs. Lögregla muni svo taka ákvörðun um framhaldið.
Þá var einnig óskað eftir aðstoð björgunarsveita fyrr í kvöld vegna manns sem hafði villst á göngu uppi á Esjunni. Lögreglumenn fundu þó manninn áður en björgunarsveitir komu á staðinn og fylgdu honum niður.
Um áttatíu björgunarsveitarmenn við leit á höfuðborgarsvæðinu í kvöld
Kristín Ólafsdóttir skrifar
