Forsetinn sagði Íslendinga ekki endilega vita eins mikið og æskilegt væri um sögu Grænlendinga, og horfi gjarnan á hana frá eigin sjónarhóli.
„Við lærum í skóla um þá norrænu menn sem sigldu vestur frá Íslandi fyrir meira en þúsund árum, fundu land og nefndu það Grænland,“ sagði Guðni og bætti við að snemma á síðustu öld hafi sumir Íslendingar tekið þátt í þeim sérdræga leik að reyna að kasta eign sinni á Grænland.

„Þar að auki hefur menning ykkar og tungumál lifað umrót nútímans, áhrif að utan sem voru ekki alltaf til góðs. Þessi afrek mega fylla ykkur stolti, kæru gestgjafar, og fylla ykkur jafnframt krafti við að takast á við þau úrlausnarefni sem nú bíða í grænlensku samfélagi.“

„Og aldrei gleyma Íslendingar þeim samhug í verki sem Grænlendingar sýndu eftir mannskæð snjóflóð á Vestfjörðum fyrir um aldarfjórðungi,“ sagði forsetinn.
Sjá einnig: Forsetahjónin heimsækja Grænland
Þá rifjaði forsetinn upp svar grænlensks gests á Íslandi þegar hann var spurður að því hvað Íslendingar gætu lært af Grænlendingum.
„Gesturinn góði hugsaði sig aðeins um, minnti á að margt gerðu Íslendingar vissulega vel en það sem þeir gætu kannski lært af Grænlendingum væri að brosa meira og hlæja meira,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson í lok ræðu sinnar um leið og hann bað gesti um lyfta glasi og skála fyrir bræðra- og systraþeli Íslendinga og Grænlendinga, „öflugra vinaþjóða í útnorðri“.