Þeir tröðkuðu á kínverska fánanum, unnu skemmdarverk á lestarstöð og kveiktu elda á breiðgötu.
Mótmælendur notuðu hamra til að fjarlægja miðaskannana af hliðum, krotuðu á veggi og brutu vélarnar. Á meðan notuðu mótmælendurnir regnhlífar til að skýla andlitum svo ekki væri hægt að bera kennsl á þá.

Mótmælendur sem krefjast aukins lýðræðis hafa komið saman í fjóra mánuði og hafa reglulega leyst upp í ofbeldi þegar liðið hefur á daginn og á kvöldin. Öfgafullur hópur meðal mótmælenda segir að beita þurfi róttækum aðgerðum til að ná athygli stjórnvalda. Á laugardagskvöld beitti lögregla táragasi og skaut gúmmíkúlum á mótmælendur sem á móti köstuðu bensínsprengjum í átt að lögreglu svo eldar loguðu á götum.

Samgönguyfirvöld lokuðu tveimur lestarstöðvum á leið lestarinnar sem fer frá flugvellinum og inn í borgina til að koma í veg fyrir mögulega truflun á samgöngum af völdum mótmælenda, sem varð ekki að veruleika.
Stjórnendur Hong Kong flugvallar sögðu að lestin myndi fara á milli flugvallarins og aðallestarstöðvarinnar í miðborginni og myndi sleppa öllum öðrum stoppistöðvum á leiðinni. Hætt var við nokkrar rútuferðir frá flugvellinum og voru farþegar beðnir um að gefa sér góðan tíma til að fara upp á flugvöll.

Mótmælendur hafa áður mótmælt á flugvellinum, stöðvað umferð og kveikt elda á götum í bænum Tung Chung sem er nærri flugvellinum og unnið skemmdarverk á lestarstöðinni þar.