Vinstriflokkurinn Vetevendosje virðist hafa fengið felst atkvæði í þingkosningunum sem fram fóru í Kósovó í dag. Flokkurinn mun þó þurfa að semja við aðra flokka við myndun nýrrar stjórnar.
Þegar búið er að telja um 82 prósent atkvæða mælist Vetevendosje (í. Sjálfsákvörðunarréttur) með 26 prósent atkvæða. Annar stjórnarandstöðuflokkur, miðhægriflokkurinn Lýðræðisbandalagið, mælist með 25 prósent atkvæða.
Formenn flokkanna tveggja sögðu í kosningabaráttunni að þeir hugðust starfa saman í ríkisstjórn, nái þeir nægilegum þingstyrk. Vilji þeir öruggan meirihluta gætu þeir þó neyðst til að leita á náðir einhverra smáflokka þjóðarbrota – Serba, Tyrkja eða Bosníumanna.
Í frétt Reuters segir að kosningarnar í dag séu þær fjórðu frá því að Kósovóar lýstu yfir sjálfstæði árið 2008. Boðað var til kosninganna eftir afsögn forsætisráðherrans Ramush Haradinaj í júlí. Hann hafði þá verið boðaður til að mæta fyrir stríðsglæpadómstól. Stendur til að yfirheyra hann vegna þátttöku hans í stríðsátökum á Balkanstaga á árunum 1998 til 1999 þegar hann gegndi embætti eins hershöfðingja í frelsisher Kósovóa sem barðist fyrir sjálfstæði frá Serbíu.
Mikil spenna er í samskiptum Serbíu og Kósovó og mun nýr forsætisráðherra standa frammi fyrir því að koma þeim í eðlilegt ástand. Fráfarandi stjórn sleit viðræðum við serbnesk stjórnvöld fyrir um ári og kom þá á 100 prósent toll á allar vörur frá Serbíu.
Kosningaþátttakan í dag var rétt rúm 44 prósent.
