Fótbolti

Alfreð spilaði ekki er Augsburg steinlá

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason var ónotaður varamaður þegar Augsburg tapaði stórt fyrir Gladbach, 5-1, í þýsku 1. deildinni í dag.

Alfreð hefur enn ekki skorað fyrir Augsburg á tímabilinu en hann var í byrjunarliðinu í síðustu þremur deildarleikjum á undan leiknum í dag. Hann missti þó af upphafi tímabilsins vegna meiðsla.

Gladbach gerði út um leikinn strax á fyrstu þrettán mínútum leiksins er liðið komst í 3-0 forystu. Forystan var 4-0 að loknum fyrri hálfleik og ljóst í hvað stefndi.

Augsburg hefur nú tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum en eini sigur liðsins kom í fyrstu umferð tímabilsins í Þýskalandi. Liðið er í fimmtánda sæti með fjögur stig.

Gladbach skaust hins vegar á topp deildarinnar með sigrinum og nýtti sér þar með tap Bayern München fyrir Hoffenheim í gær, 2-1.

Alfreð heldur næst heim til Íslands en fram undan eru leikir gegn Frakklandi og Andorra í undankeppni EM 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×