Grétar Örvarsson, hljómborðsleikari og félagi Einars Braga úr Stjórninni, minnist hans á Facebook og segir sárt að sjá á eftir góðum vini sem fékk hjartaáfall í lok vikunnar.
„Stjórnin naut hæfileika Einars Braga um árabil. Við Sigga minnumst hans með þakklæti og virðingu og hugsum til ástvina hans á þessum erfiðu tímum. Blessuð sé minning Einars Braga,“ segir Grétar.
Einar Bragi flutti vestur á Patreksfjörð fyrir þremur árum með fjölskyldu sinni og tók við skólastjórn í tónlistarskólanum í bænum.

Einar Bragi var þekktur fyrir snilli sína á saxófóninn og lagasmíðar. Hann kom fram með Stjórninni í fyrra á 30 ára afmæli sveitarinnar, meðal annars á Bræðslunni á Borgarfirði eystra.
Tónlistarfólk úr öllum áttum minnist Einars Braga á samfélagsmiðlum. Má þar nefna Björgvin Halldórsson, Björn Thoroddsen og Bjarna Arason.
Einar Bragi lýsti tónlistarlífinu í Vesturbyggð í viðtali í Fréttablaðinu í fyrra en þá fagnaði tónlistarskólinn fimmtíu ára afmæli.
Einar Bragi var valinn Austfirðingur ársins árið 2008 þegar hann gegndi stöðu skólastjóra Tónlistarskólans á Seyðisfirði.