Í morgun var greint frá því að Ísland sé nú meðal þeirra ríkja sem bætt var á svokallaðan gráan lista FATF-hópsins yfir ríki sem ekki hafi nægar varnir gegn peningaþvætti. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt niðurstöðunni.
Sjá einnig: Ísland á gráum lista ríkja vegna peningaþvættis
Þá verður rædd tillaga á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á mánudaginn um hvort nefndin hefji frumkvæðisskoðun á verklagi ráðherra vegna ábendinga framkvæmdahóps FATF vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
„Það er í sjálfu sér ekki útilokað að nefndirnar taki þetta báðar fyrir,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þetta heyri vissulega undir málefnasvið efnahags- og viðskiptanefndar en hvað varðar aðgerðir, og eftir atvikum aðgerðarleysi, stjórnvalda í aðdraganda þess að Ísland lenti á listanum er nokkuð sem að sögn Þórhildar Sunnu væri eðlilegt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi skoða í framhaldinu.
