Rannsókn lögreglu á máli þar sem maður er grunaður um að hafa hrint konu fram af svölum í Breiðholti er á lokametrunum. Að sögn Margeirs Sveinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, telst málið upplýst og verður það sent til ákærusviðs á næstunni.
Maðurinn er laus úr haldi lögreglu en hann var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald þann 17. september, daginn eftir að málið kom upp.
Var hann úrskurðaður í varðhald á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, það er talið var að maðurinn hefði rofið í verulegum atriðum skilyrði skilorðsbundins dóms. Þegar hann lauk afplánun þess dóms þótti svo ekki ástæða til þess að gera frekari kröfur um að hann yrði áfram í haldi að sögn Margeirs.
Maðurinn er grunaður um stórfellda líkamsárás. Spurður út í tengsl mannsins og konunnar sem hann er talinn hafa ráðist á segir Margeir að þau hafi þekkst. Þá voru vitni að því sem gerðist á svölunum og hefur lögregla rætt við þau á meðan á rannsókn hefur staðið.
Líkamsárásin á svölunum í Breiðholti telst upplýst

Tengdar fréttir

Laus úr gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa hrint konu fram af svölum
Maður, sem úrskurðaður var í fjögurra vikna gæsluvarðhald þann 17. september síðastliðinn, grunaður um að hafa hrint konu fram af svölum húss í Breiðholti, er laus úr haldi.

Í gæsluvarðhald grunaður um að hafa hrint konu fram af svölum
Maðurinn sem handtekinn var í gærkvöldi, grunaður um að hafa hrint konu fram af svölum í Breiðholti, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. október.

Konan ekki í lífshættu eftir fallið fram af svölunum
Ekki er búið að ákveða hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manni sem talinn er hafa hrint konu fram af svölum í Breiðholti í gærkvöldi.

Konu hrint fram af svölum í Breiðholti
Hún var flutt á sjúkrahús og er alvarlega slösuð en sá sem talinn er hafa hrint henni var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu.