Þetta staðfestir Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður Freyju í samtali við Vísi en RÚV greindi fyrst frá.
Freyja sendi Barnaverndarstofu umsókn um að taka barn í fóstur en var synjað um að sitja matsnámskeið sem umsóknaraðilum er gert að taka. Héraðsdómur hafnaði í fyrrasumar kröfu Freyju um að fella ákvörðunina úr gildi en Landsréttur sneri dómi héraðsdóms við í mars.
Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu í morgun. „Núna er niðurstaðan sú að Freyju hafi verið mismunað vegna fötlunar og að synjunin hafi verið ólögmæt og í andstöðu við rannsóknarskyldur stjórnvalda,“ segir Sigrún Ingibjörg.
Sjá einnig: Niðurlægjandi og sárt að vera ein örfárra sem fá ekki að sitja námskeiðið
Næsta skref er að Freyja fari í gegnum almennt umsóknarferli í von um að gerast fósturforeldri. Hún fari þannig á umrætt námskeið þar sem hæfni hennar verður metin.
„Ég á von á því að Barnaverndarstofa afgreiði þetta fljótt og örugglega núna þegar málið fer aftur á stjórnsýslustig og gæti að því að hún fái sömu málsmeðferð og aðrir,“ segir Sigrún Ingibjörg.
Þannig gerir hún ráð fyrir að umsókn Freyju verði tekin strax upp, eftir langt og strangt ferli.
„Þetta er auðvitað niðurstaðan sem við vonuðumst eftir og það sem við erum búnar að vera að segja í fimm ár.“
Freyja ræddi málið í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í janúar síðastliðnum. Þar sagði hún m.a. að fólk gerði sér ekki grein fyrir hvers hún væri megnug. Staðreyndin væri sú að hún hefði mikla reynslu af umönnun barna, unnið í um áratug á leikskóla og ætti stóra fjölskyldu sem myndi hjálpa til. Þá væri það niðurlægjandi og sárt að vera ein örfárra sem fengju ekki að sitja matsnámskeið Barnaverndarstofu.
Viðtalið við Freyju má horfa á í spilaranum hér að neðan.