Fótbolti

Þótti líklegur til að taka við Real Madrid en er nú tekinn við liði í B-deildinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Guti er afar vinsæll hjá Real Madrid
Guti er afar vinsæll hjá Real Madrid vísir/getty
Spánverjinn Guti er tekinn við spænska B-deildarliðinu Almeria en hann tekur við liðinu af Pedro Emanuel sem var látinn taka pokann sinn í gær þrátt fyrir að vera með liðið í 2.sæti deildarinnar. Raunar er liðið taplaust í síðustu fimm leikjum sínum og komu fréttir af uppsögn Emanuel því talsvert á óvart en Emanuel var ráðinn til félagsins af nýjum eigendum fyrir þremur mánuðum síðan.

Útskýringin er nú komin þar sem félagið tilkynnti um ráðningu Guti seint í gærkvöldi. Þessi fyrrum miðjumaður Real Madrid þykir afar efnilegur þjálfari og voru háværir orðrómar þess efnis að hann myndi óvænt taka við sem stjóri Real Madrid þegar Zinedine Zidane hætti vorið 2018 en Guti starfaði þá hjá félaginu sem þjálfari unglingaliðsins.

Julen Lopetegui fékk hins vegar starfið og Guti hélt til Besiktas þar sem hann var aðstoðarþjálfari Senol Gunes. Hann var svo aftur orðaður við Real Madrid þegar Lopetegui hrökklaðist úr starfi eftir nokkra mánaða veru. Þá mætti Zidane hins vegar aftur á svæðið

Almeria var keypt af Sádi-Arabanum Turki Al-Sheikh í sumar. Sá er með fulla vasa af peningum og hefur ekki farið leynt með markmið sitt sem er að gera Almeria að öflugu úrvalsdeildarliði á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×