Karlmaður réðst á konu fyrir utan verslun í miðbænum og veitti henni áverka á fjórða tímanum í nótt. Konan gat gefið greinargóða lýsingu á árásarmanninum, sem var henni ókunnugur, en hann hefur enn ekki fundist, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá var tilkynnt um það síðdegis í gær að glerlistaverki og mögulega fleiri verkum hefði verið stolið úr galleríi í miðbænum.
Á fimmta tímanum var þrítugur karlmaður handtekinn á vettvangi í Fossvogi, grunaður um þjófnað úr nokkrum bifreiðum. Lögregla var kölluð á staðinn vegna tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.
Þá óskaði starfsfólk verslunar í Breiðholti eftir aðstoð lögreglu vegna þjófnaðar á matvörum. Hinn meinti þjófur var laus að lokinni skýrslutöku.
Tveir bílar lentu í árekstri á Vesturlandsvegi í Árbæ á tíunda tímanum. Ekki urðu slys á fólki.
Réðst á konu og stakk af
Kristín Ólafsdóttir skrifar
