Erlent

Tyrkir hóta að senda ISIS fanga aftur til Evrópu

Eiður Þór Árnason skrifar
Suleyman Soylu gagnrýndi aðgerðarleysi Evrópuþjóða.
Suleyman Soylu gagnrýndi aðgerðarleysi Evrópuþjóða. Getty/Anadolu Agency
Suleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrklands, lýsti því yfir í gær að handsamaðir meðlimir hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) verði sendir aftur til heimalanda sinna.

Soylu gagnrýndi í sömu andrá aðgerðarleysi Evrópuríkja í málefnum fanganna. Fangarnir sem höfðu margir hverjir sloppið úr fangageymslum í Sýrlandi voru handsamaðir aftur af Tyrkjum eftir að umdeildar hernaðaraðgerðir þeirra hófust í norðausturhluta Sýrlands.

Innanríkisráðherrann lét hafa eftir sér að Tyrkir væru ekki að reka „hótel fyrir meðlimi ISIS.“

„Við munum senda handsömuðu ISIS meðlimina aftur til sinna landa,“ bætti Soylu við.

Mörgum Evrópuþjóðum hefur reynst erfitt að eiga við það hvernig skuli taka á móti hermönnum samtakanna og fjölskyldum þeirra þegar fólkið snýr aftur frá átakasvæðum í Írak og Sýrlandi.

Sum ríki, á borð við Frakkland og Bretland, hafa fram að þessu neitað að taka aftur við bardagamönnum samtakanna og eiginkonum þeirra en gert undantekningar fyrir börn.


Tengdar fréttir

Minnst 13 féllu þegar bílsprengja sprakk í Sýrlandi

Þrettán fórust þegar bílsprengja sprakk í borginni Tal Abyad í norðurhluta Sýrlands í dag. Þetta staðfestir varnarmálaráðuneyti Tyrklands. Allir þeir sem létust voru almennir borgarar og talið er að tuttugu aðrir hafi særst.

Ætla ekki að herja á Kúrda í bili

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og Vladimir Pútín, forseti Rússlands, komust í gær að samkomulagi sem þeir kalla sögulegt.

Óvissa um vopnahléið sem Tyrkir kalla pásu

Bardagar geisuðu áfram í Sýrlandi í dag, samkvæmt sýrlenskum Kúrdum og eftirlitsaðilum, þrátt fyrir að Tyrkir og Bandaríkjamenn hafi lýst yfir umdeildu vopnahléi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×