Sósíalistaflokkurinn og Podemos hafa náð samkomulagi um að mynda ríkisstjórn á Spáni. Eftir kosningarnar sem fram fóru sunnudaginn 10. nóvember vantar þá þó enn um 20 þingmenn til að ná meirihluta á þinginu. Munu þeir því þurfa að leita til smærri flokka.
„Spænska þjóðin hefur talað og nú er það í verkahring stjórnmálaleiðtoganna að knýja þann vilja fram og rjúfa þá pattstöðu sem myndast hefur að undanförnu,“ sagði Pedro Sanchez, forsætisráðherra og leiðtogi Sósíalista.
Flokkur hans hélt fylgi sínu nokkurn veginn, tapaði aðeins þremur þingsætum og hefur nú 120. Podemos, sem er enn þá lengra á vinstrivængnum, tapaði sjö af 42 sætum sínum. Samanlagt hafa flokkarnir 155 sæti en þurfa 176.
Sigurvegarar kosninganna, Íhaldsflokkurinn og þjóðernispopúlíski flokkurinn Vox, eiga litla von um að geta myndað stjórn. Samkomulag Sósíalista og Podemos markar nokkur tímamót því að illt hefur verið á milli flokkanna að undanförnu. Hefur Sanchez hingað til ekki viljað taka það í mál að Podemos fengi ráðherrastóla.
Stærsta málefnið sem spænsk stjórnmál standa frammi fyrir í dag er hvernig taka eigi á sjálfstæðiskröfum Katalóna. Vinstriflokkarnir gætu þurft að leita eftir stuðningi Katalónskra þjóðernissinna, sem fengu 13 þingsæti á sunnudag.
Sameinast um að mynda stjórn

Tengdar fréttir

Nýjar kosningar gerðu lítið til þess að höggva á hnútinn
Hægri öfgaflokkurinn Vox vann stórsigur í kosningunum og bætti við sig 28 sætum og hlaut því 52 sæti í heildina.

Sósíalistar stefna að því að mynda ríkisstjórn hratt
Þingkosningar sem áttu að binda enda á þrátefli á spænska þinginu leiddu aðeins fram enn frekari flokkadrætti en áður.

Stjórnarkreppudraugur vofir enn yfir á Spáni
Ekki er útlit fyrir að stjórnarkreppan á Spáni leysist eftir kosningar gærdagsins. Þetta voru fjórðu þingkosningarnar á jafnmörgum árum.