Um þrjú hundruð landsmenn tóku þátt í rökræðukönnun í Laugardalshöll um helgina þar sem rædd voru nokkur afmörkuð atriði stjórnarskrárinnar.
Halldóra er ekki sannfærð um að rökræðukönnunin dugi til að hlustað verði á vilja þjóðarinnar.
„Í ljósi þess að stjórnvöld hafa gjörsamlega hunsað niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrá sem var samin í víðfemasta og lýðræðislegasta starfi að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina, svo vitnað sé til orða Vigdísar Finnbogadóttur. Af hverju á almenningur að hafa einhverja trú á því að aðkoma félagsvísindadeildar Háskóla Íslands verði einhvers konar vendipunktur? Hvað telur hæstvirtur forsætisráhðerra að muni breytast með tveggja daga rökræðukönnun þegar áralangt ferli sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu dugði ekki til?“ spurði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata á Alþingi í dag.

„Þar sem við erum ekki bara að spyrja einnar spurningar heldur í raun og veru að kanna hvernig viðhorf fólks breytast við rökræðu, nokkuð sem ég hefði haldið að væri mikill áhugi fyrir hér á Alþingi Íslendinga ef við viljum nýta fjölbreyttar aðferðir við almannasamráð,“ segir Katrín.
Hún sagðist vona að Alþingi muni nýta rökræðukannanir í auknum máli við að virkja almenning til samráðs.
„Ég tel að þessi leiðsögn sem við munum fá út úr þessum fundi muni sömuleiðis nýtast okkur mjög vel í verkefnið um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.“
Halldóra sagðist einnig vera mjög hrifin af rökræðukönnunum til að virkja almenning en í þessu tilfelli hefði verið búið að fara í gegnum langt og lýðræðislegt ferli sem endaði með þjóðaratkvæðagreiðslu sem hafi verið hunsuð.
„Af hverju á almenningur að taka þátt þegar samráðið er síðan hunsað?“