Unai Emery var sagt upp störfum hjá Arsenal í gær. Hann stýrði Arsenal í síðasta sinn þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Eintracht Frankfurt, 1-2, í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.
The Evening Standard greinir frá því að leikmenn Arsenal hafi ekki borið mikla virðingu fyrir Emery og reglulega gert grín að Spánverjanum.
Því er lýst þegar Emery sat einn í einkaflugvél Arsenal á leiðinni heim frá Portúgal eftir 1-1 jafntefli við Vitoria Guimareas í Evrópudeildinni.
Leikmenn Arsenal sátu fyrir aftan hann og sögðu brandara á hans kostnað. „Hvað erum við með marga fyrirliða,“ var meðal þess sem þeir sögðu.
Þar var vísað til fyrirliðavandræða Arsenal en Emery leyfði leikmönnum liðsins að kjósa sér fyrirliða. Granit Xhaka varð fyrir valinu en var sviptur fyrirliðabandinu eftir uppákomu í leik gegn Crystal Palace. Pierre-Emerick Aubameyang tók þá við sem fyrirliði.
Í frétt Evening Standard segir að leikmenn Arsenal hafi líka gert grín að hreim Emerys og vandræðum hans með að tjá sig á ensku. Þeir áttu það til að herma eftir honum á æfingasvæðinu.
Freddie Ljungberg tók við Arsenal til bráðabirgða og stýrir liðinu gegn Norwich City í ensku úrvalsdeildinni á morgun.
Leikmenn Arsenal gerðu grín að Emery

Tengdar fréttir

Emery rekinn frá Arsenal
Unai Emery var í dag rekinn úr starfi sínu sem knattspyrnustjóri Arsenal.

Enn eitt tapið hjá Arsenal
Arsenal náði ekki að tryggja sér sæti í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar þegar liðið tapaði fyrir Frankfurt.

„Sorgleg“ leikmannastefna varð Emery að falli
Gary Neville segir að léleg leikmannakaup hafi orðið Unai Emery að falli. Emery var rekinn frá Arsenal í gær.