Yfirheyrslur yfir fimm mönnum sem handteknir voru í tengslum við andlát manns í Úlfarsárdal í gær hófust í gærkvöldi og standa enn yfir. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
Margeir segir málið í rannsókn en vill að öðru leyti ekki tjá sig um það. Lögregla getur haldið mönnunum í sólarhring án þess að fara fram á gæsluvarðhald yfir þeim.
Lögreglu barst tilkynning um það á þriðja tímanum í gær að maður hefði fallið fram af svölum íbúðarhúss í Úlfarsárdal. Mikill viðbúnaður lögreglu var á vettvangi í gær.
Maðurinn var úrskurðaður látinn á Landspítalanum. Hann var erlendur ríkisborgari, sem og þeir fimm sem eru í haldi lögreglu. Margeir gat ekki gefið fréttastofu upplýsingar um tengsl mannanna og hins látna í gær.
Mennirnir yfirheyrðir vegna andláts í Úlfarsárdal
