Þegar Lóa Pind og Egill Aðalsteinsson myndatökumaður heimsóttu Kristínu og Orra um miðjan október stefndu þau á að flytja inn mánuði síðar. Það hefur ekki gengið eftir - enda voru æði mörg handtök þá eftir í húsinu - en eins og sjá má í myndskeiðinu sem hér fylgir þá hefur heilmikið gerst á þeim eina og hálfa mánuði sem liðinn er. Þau reikna þó fastlega með því að geta flutt inn fyrir jól.
Þegar Lóa ræddi við fjölskylduna átti að vera um mánuður eftir af framkvæmdum á Balí. Það hefur örlítið dregist á langinn og vonast þau til að komast inn fyrir jól.
Í þáttunum sem eftir eru heimsækja þau Íslendinga sem létu drauminn um að búa í útlöndum rætast, m.a. flugvirkja og markþjálfa í Englandi, eldri borgara sem njóta lífsins á Spáni, fyrrverandi lögregluþjón og fyrrverandi dönskukennara hjá tölvuleikjarisa á Kýpur og hjón sem ákváðu að selja allt sitt og flakka um veröldina á heimasmíðuðum húsbíl.
Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumenn eru Lúðvík Páll Lúðvíksson og Egill Aðalsteinsson, klippingu annast Ólafur Þór Chelbat, Tumi Bjartur Valdimarsson og Guðni Hilmar Halldórsson. Framleitt af Lóa Production fyrir Stöð 2.