Erindrekar Kína og Rússlands í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafa samið tillögu sem snýr að því að fella niður viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu. Þvinganir á útflutningi sjávarfangs og vefnaðarvörum yrðu felldar niður ef tillagan verður samþykkt og bann við því að íbúar Norður-Kóreu vinni erlendis. Rússar segja tillöguna miða að því að fá Norður-Kóreu aftur að samningaborðinu vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana ríkisins.
Blaðamenn Reuters fréttaveitunnar hafa séð uppkast af tillögunni en ekki er víst að hún verði lögð fyrir öryggisráðið, þar sem Bandaríkin eru andsnúin henni.
Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, segir umrædda iðnaði ekki koma að kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu, heldur snúi tillagan að mannréttindum.
Rússar og Kínverjar hafa kallað eftir því að verðlauna ætti Norður-Kóreu eftir að Kim Jong Un, einræðisherra ríkisins, hét því í fyrra að vinna að afvopnun. Norður-Kórea hefur þó ítrekað heitið aðgerðum í stað ívilnana og ekki staðið við það.
Þvinganir gegn þeim iðnöðum sem nefndir eru hér að ofan voru settar árið 2017 og var markmiðið að hefta aðgang yfirvalda Norður-Kóreu að fjármagni sem nýtt er í vopnaáætlanir ríkisins. Ríkið þénaði hundruð milljóna dala á þeim.
Rannsókn Sameinuðu þjóðanna árið 2015 leiddi í ljós að yfirvöld Norður-Kóreu þvinguðu rúmlega 50 þúsund manns til að vinna erlendis og þá aðallega í Rússlandi og Kína og við slæmar aðstæður. Þannig kæmi einræðisríkið höndum yfir erlendan gjaldeyri. Á þessu þénaði Norður-Kórea allt að 2,3 milljarða dala á ári.
Ótímabært að létta á þrýstingi
Embættismaður í Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna sagði ótímabært að vella niður viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu, á sama tíma og einræðisríkið hótaði öðrum, neitaði að koma að samningaborðinu og hélt áfram tilraunum sínum og þróun gereyðingarvopna og eldflauga.
Norður-Kórea hætti öllum viðræðum og vill losna undna þvingunum áður en viðræðurnar hefjast að nýju. Það vilja Bandaríkin, Bretland og Frakkland ekki og segja Norður-Kóreu þurfa að grípa til aðgerða varðandi afvopnun áður.
Christoph Heusgen, sendiherra Þýskalands, sagði í gær að mikilvægt væri að meðlimir öryggisráðsins sýndu einingu.
Ríkisstjórn Kim hefur gefið Bandaríkjunum frest til áramóta til að koma til móts við þá. Sendiherra ríkisins gagnvart Sameinuðu þjóðunum sagði í síðustu viku að afvopnun yrði ekki til umræðu.
Á alþjóðavísu eru áhyggjur um að Norður-Kórea muni gera kjarnorkusprengjutilraunir eða tilraunir með langdrægar eldflaugar en ríkið er talið hafa prófað eldflaugahreyfla að undanförnu.