Samherji segist ekkert hafa vitað um mútugreiðslur til Sacky Shangala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, sem nú hefur verið handtekinn. Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, segir að sér þyki ólíklegt að stjórnendur fyrirtækisins á Íslandi hafi vitað af félaginu sem notað var til að miðla greiðslunum til dómsmálaráðherrans. Ingólfur segist þannig aldrei hafa persónulega sagt stjórnendum Samherja frá umræddum greiðslum.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og er þar vísað til félagsins ERF 1980. Eins og getið var í Kveik og Stundinni runnu 16,5 milljónir króna frá Kötlu Seafood, nú Mermaria Seafood, í gegnum leigusamning við ERF 1980. Peningarnir sem fóru til félagsins enduðu að lokum í vösum fyrrnefnds Shangala og James Hatuikulipi, stjórnanda Fishcor. Þeir voru báðir handteknir í Namibíu í lok nóvember í tengslum við rannsókn málsins.
Í samskiptum við Fréttablaðið hafnar Samherji því alfarið að hafa vitað af greiðslum til Shangala. Skuldinni er skellt á Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarann og fyrrverandi stjórnanda fyrirtækisins í Namibíu, eins og Samherji hefur gert frá því að fyrst fór að spyrjast út um yfirvofandi umfjöllun. Jóhannes sjálfur segir þær ásakanir ekki standast skoðun. Í viðtali við Kastljós á miðvikudag sagðist hann aðeins hafa borið ábyrgð á um 20 til 30 prósentum mútugreiðslna í Namibíu. Því til stuðnings bendir hann á að alls hafi sex einstaklingar verið handteknir í Namibíu í tengslum við Samherjamálið, ekki bara fyrrnefndir Shangala og Hatuikulipi.
Fréttablaðinu hefur þó gengið erfiðlega að fá starfsmenn Samherja til að stíga fram undir nafni í tengslum við greiðslur úr ERF 1980. Fréttablaðið áætlar að það sé vegna fyrirmæla frá norsku lögmannsstofunni Wikborg Rein, sem falið hefur verið að halda utan um innri rannsókn Samherja á því sem kom fram í umfjöllum Kveiks, Stundarinnar og Wikileaks.
