Veðurstofa Íslands hefur aflýst óvissustigi á Mið-Norðurlandi vegna hættu á snjóflóðum. Tilkynning um það barst nú rétt fyrir sjö.
Óvissustiginu var lýst yfir síðasta þriðjudag og var tekin ákvörðun um það vegna mjög slæmrar veðurspár og mikillar snjókomu á svæðinu. Var einnig spáð mjög hvassri norðaustan- og norðanátt.
Var þá viðbúið að snjóflóð myndu falla í bröttum brekkum sem söfnuðu í sig snjó í norðaustan- og norðanáttum, einkum þar sem snjór safnast í gil.
Sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands sagði í gær í samtali við fréttastofu að minnsta kosti þrjú snjóflóð hafi fallið í óveðrinu. Hann sagði líkur vera á því að fleiri ættu eftir að koma í ljós þegar vegir verði opnaðir og rofa fari til.
Óvissustigið náði til fjalllendis í Skagafirði, Tröllaskaga og austur fyrir Eyjafjörð og tók gildi klukkan átta á þriðjudagsmorgun. Klukkustund áður tók gildi appelsínugul veðurviðvörun á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra sem var síðar hækkuð í rauða viðvörun seinna á þriðjudag.
Þetta var í fyrsta skiptið sem Veðurstofa Íslands hefur gefið út rauða veðurviðvörun frá því að notkun var hafin á gildandi litakerfi. Veðurstofa Íslands fylgist að venju með frekari snjósöfnun í fjöllum.
