Erlent

Útlit fyrir sigur Íhaldsflokksins á morgun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Svona gæti skipting þingsæta litið út eftir kosningarnar.
Svona gæti skipting þingsæta litið út eftir kosningarnar. Vísir/Hafsteinn

Bretar kjósa sér nýtt þing á morgun. Kannanir benda til þess að Íhaldsflokkurinn verði stærstur og nái jafnvel hreinum meirihluta. Boðað var til kosninganna eftir að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var frestað fram í janúar.

Kosningabaráttan hefur einkennst af umræðu um útgöngumálið og lagði Boris Johnson, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, áherslu á það í dag. Jeremy Corbyn og Verkamannaflokkur hans hafa einnig lagt áherslu á breskt velferðarkerfi og talað fyrir þjóðvæðingu meðal annars orku- og vatnsfyrirtækja.

Fyrir kosningar var Íhaldsflokkurinn er stærstur en ekki með meirihluta. Flokkurinn fékk 42,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum en Verkamannaflokkurinn 40 prósent.

Nýjasta könnun ICM sýnir Íhaldsflokkinn með 42 prósent og Verkamannaflokkinn með 36, nokkru meira en í síðustu könnunum. Greining YouGov á mögulegri skiptingu þingsæta leiddi í ljós að Íhaldsflokkurinn fái líklega meirihluta, gangi kannanir eftir, en þar á bæ vildu greinendur ekki fullyrða neitt slíkt.

Munurinn á milli Íhaldsflokksins og Verkamanna var töluvert minni í síðustu kosningum en kannanir höfðu sýnt á lokaspretti kosningabaráttunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×