Draumur Corey Groves, 17 ára Kanadamanns, rættist í jóladag.
Groves er með fjórða stigs krabbamein, svokallað sarkmein, og læknar hafa tjáð honum að hann eigi innan við ár eftir ólifað.
Hans hinsta ósk var að hitta körfuboltamanninn LeBron James í Staples Center í Los Angeles.
Hún rættist í jóladag þegar LeBron og félagar hans í Los Angeles Lakers mættu grönnum sínum í Los Angeles Clippers. Lakers tapaði leiknum, 106-111.
Groves hitti hetjuna sína og birti mynd af sér með LeBron á Instagram eftir leikinn. Að sjálfsögðu var Groves í gulri Lakers-treyju með nafni LeBrons og númerinu 23.
