Skoðun

Furðuleg samkoma í boði MATÍS

Jón Kaldal skrifar

MATÍS stóð fyrir furðulegri samkomu fimmtudaginn 19. desember um áhrif sjókvíaeldis á laxi á strjálbýl strandsvæði í Norður Noregi. Matís þiggur stærstan hluta tekna sinna frá ríkinu og meðal meginmarkmiða stofnunarinnar eru matvælaöryggi og lýðheilsa. Á hvorugt var þó minnst á þessum fundi að frumkvæði stjórnenda MATÍS eða gestafyrirlesarans, Gunnars Davíðsonar, deildarstjóra hjá fylkisstjórn Troms fylkis í Noregi.

Það var vægast sagt sérstakt að hlusta á Gunnar, sem var kynntur til leiks sem sérfræðingur um áhrif sjókvíaeldis, flytja klukkutíma fyrirlestur þar sem var alfarið skautað fram hjá hversu gríðarlega umdeilt laxeldi í sjókvíum er, hvort sem það er í Noregi eða annars staðar þar sem það er stundað.

Gunnar minntist ekki orði á að fosfórs- og köfnunarefnismengun hefur tíu- til fimmtánfaldast í hafinu við Noreg á undanförnum árum með vaxandi eldi. Hann minntist heldur ekki á að árið í ár er það versta frá 2011 í norsku sjókvíaeldi þegar litið er til sleppislysa. Hann nefndi ekki einu orði gríðarlegan velferðarvanda sem sjókvíaeldið glímir við þegar kemur að aðbúnaði eldislaxa í kvíunum. Hefur sú umræða þó verið mjög plássfrek í Noregi eftir að feikilegur fjöldi fiska kafnaði í kvíum á þessu ári vegna mikils þörungarblóma. Bættist það við lúsafárið sem er viðvarandi vandamál í sjókvíaeldi með hörmulegum afleiðingum fyrir eldisfiskinn. Gunnar talaði ekki heldur um háværa gagnrýni norskra sjómanna. Hvorki þeirra sem segja rækjustofna hafa hrunið vegna mikillar notkunar lúsaeitur í sjókvíaeldi né þeirra sem hafa áhyggjur af áhrifum sjókvíaeldisins á þorskinn.

Og þá var afar undarlegt að Gunnar nefndi ekki að sveitarstjórn stærsta sveitarfélags fylkisins, sem hann vinnur þó fyrir, samþykkti í fyrra að stöðva útgáfu leyfa fyrir sjókvíaeldi og endurnýja ekki eldri leyfi, einmitt af þeim ástæðum sem eru nefndar hér fyrir ofan.

Á fundinum upplýsti forstjóri MATÍS að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem Gunnar flutti þetta meinta fræðsluerindi hér á landi á vegum stofnunarinnar. Varla ætlar MATÍS að láta staðar numið þar í þessu fyrirlestrarhaldi um áhrif sjókvíaeldis. Eins og lesendur sjá er þar af nægu að taka.

Höfundur er meðlimur í Íslenska náttúruverndarsjóðnum - The Icelandic Wildlife Fund




Skoðun

Sjá meira


×