Lögregla í Noregi handtók í gærkvöldi mann í tengslum við rannsóknina á hvarfi Anne-Elisabeth Hagen, eiginkonu auðjöfursins Tom Hagen.
Norska lögreglan segir í yfirlýsingu í morgun að maðurinn sé á fertugsaldri og búsettur í Raumaríki. Maðurinn er í haldi vegna gruns um að hafa gerst brotlegur við 275. grein norskra hegningarlaga – fyrir að hafa banað Anne-Elisabeth Hagen eða átt aðild að drápi.
Lögregla segir manninn tengjast Tom Hagen og er vitað að maðurinn þekki vel til á sviði upplýsingatækni og rafmynta.
Beðið eftir úrskurði hæstaréttar
Tom Hagen situr nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um morð eða aðild að morði á eiginkonu sinni, Anne-Elisabeth Hagen. Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabeth frá 31. október 2018.
Málið var fyrst rannsakað sem mannrán, en lögregla telur nú Tom Hagen hafa sviðsett ránið til að villa um fyrir lögreglunni.
Tom Hagen var handtekinn í lok aprílmánaðar og í kjölfarið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Lögmannsréttur Eidsivaþing í Noregi úrskurðaði hins vegar í gær að Hagen skyldi sleppt úr gæsluvarðhaldi, vegna ónógra sönnunargagna. Þar sem að lögregla áfrýjaði þeim úrskurði til hæstaréttar landsins þarf Hagen að sitja áfram í gæsluvarðhaldi þar til að rétturinn hefur tekið málið til meðferðar.
Útiloka ekki fleiri handtökur
Verjandi Hagen hefur ítrekað bent á vanþekkingu Tom Hagen á rafmyntum sem vísbendingu um að hann hafi hvergi komið nálægt hvarfinu á eiginkonu sinni, en upphaflega var talið að Anne-Elisabeth Hagen hafi verið rænt og að mannræningjarnir farið fram á háar upphæðir sem skyldu greiddar með rafmynt ef tryggja ætti lausn hennar.
NRK segir frá því að lögregla hafi handtekið manninn í höfuðborginni Osló í gærkvöldi og hafi í kjölfarið verið framkvæmd húsleit á heimili mannsins.
Lögregla hefur ekki útilokað að fleiri handtökur veri gerðar í málinu.