Erlent

Íbúar Kabúl í losti eftir árás á fæðingardeild

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tvö börn hið minnsta fórust í árás gærdagsins.
Tvö börn hið minnsta fórust í árás gærdagsins. AP/Rahmat Gul

Íbúar afgönsku höfuðborgarinnar Kabúl eru harmi slegnir eftir að vígamenn réðust á fæðingardeild sjúkrahúss í gær. Að minnsta kosti tuttugu og fjögur fórust, þar af tvö nýfædd börn.

Rúmlega hundrað konum og börnum var bjargað út úr sjúkrahúsinu eftir að árásin hófst. Rýmingin gekk erfiðlega og hafa fjölskyldumeðlimir margir ekki fengið upplýsingar um hvort ástvinum sínum hafi verið bjargað eða þá hvert þeim var komið.

Mehdi Jafari er einn þeirra. Hann leitaði mágkonu sinnar, hjúkrunarfræðings á sjúkrahúsinu, í dag.

„Við leituðum að henni á öllum sjúkrahúsum Kabúl, jafnt einka- sem ríkisreknum, en fundum hana ekki. Það veit enginn um hana. Við höldum áfram að leita, allir ættingjarnir, og vonumst eftir góðum fréttum,“ sagði Jafari við AP.

Eiginkona Qurbans Ali og dóttir hans sluppu og voru fluttar á Ataturk-sjúkrahúsið þar sem hann beið eftir að fá að hitta þær í dag.

„Þegar ég heyrði af því sem gerðist var ég í algjöru losti og missti stjórn á mér. En lof sé drottni, ég frétti að barnið mitt og eiginkona væru ósærð. Það voru gleðifréttir,“ sagði Ali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×