Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur verið lagður inn á sjúkrahús til að undirgangast athuganir. Tíu dagar eru nú síðan hann greindist með kórónuveiruna.
Talskona forsætisráðuneytisins segir í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að Johnson sé enn með einkenni veirusýkingarinnar og sé meðal annars með háan hita.
Hann var lagður inn á sjúkrahús í Lundúnum nú undir kvöld að læknisráði og er innlögnin sögð vera varúðarráðstöfun. Forsætisráðherrann mun undirgangast venjubundnar athuganir og er reiknað með því að hann dvelji þar í nótt.
Á föstudag birti Johnson myndband á Twitter þar sem hann sagðist vera með minniháttar einkenni. Á laugardag greindi Carrie Symonds, ólétt unnusta hans, frá því á Twitter að hún hafi verið rúmliggjandi í viku með einkenni veirunnar. Hún hafði þá ekki enn farið í sýnatöku.
Another quick update from me on our campaign against #coronavirus.
— Boris Johnson #StayHomeSaveLives (@BorisJohnson) April 3, 2020
You are saving lives by staying at home, so I urge you to stick with it this weekend, even if we do have some fine weather.#StayHomeSaveLives pic.twitter.com/4GHmJhxXQ0
Johnson hefur unnið heima frá því að tilkynnt var um smitið þann 27. mars síðastliðinn. Hann mun áfram leiða ríkisstjórnina og hvetur fólk til þess að fylgja tilmælum um félagsforðun.
Forsætisráðherrann hefur verið duglegur að deila skilaboðum á samfélagsmiðlum eftir að hann fór í einangrun og stýrði fundi um viðbrögð þarlendra stjórnvalda við faraldrinum á föstudag í gegnum fjarfundarbúnað.
Fréttin hefur verið uppfærð.