Ef takast á að ljúka keppnistímabilinu í boltaíþróttunum í Þýskalandi í sumar þá verður það gert fyrir luktum dyrum. Stórar samkomur eru bannaðar í landinu út ágúst.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kynnti þessi áform í dag. Þetta þýðir þó ekki að útilokað sé að þær umferðir sem til að mynda eftir eru í þýska fótboltanum verði leiknar. Hlé er á þýsku 1. deildinni til 30. apríl en flest lið hófu þó æfingar á nýjan leik í minni hópum í síðustu viku. Forráðamenn þýsku deildakeppninnar funda 23. apríl og ætla sér að finna lausnir til að klára tímabilið fyrir 30. júní, enda gríðarmiklar sjónvarpstekjur í húfi.
Að sama skapi er ljóst að ekki verða áhorfendur á leikjum í þýska handboltanum eða körfuboltanum verði spilað meira á þessu tímabili.