Viðskipti innlent

Koma með ferðaþjónustureynslu inn í stjórn Orku náttúrunnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Magnús Már Einarsson og Tómas Ingason taka sæti í stjórn Orku náttúrunnar.
Magnús Már Einarsson og Tómas Ingason taka sæti í stjórn Orku náttúrunnar.

Tómas Ingason og Magnús Már Einarsson eru nýir stjórnarmenn hjá Orku náttúrunnar. Báðir eru þeir með bakgrunn í ferðaþjónustu. Tómas var valinn í stjórn í kjölfar auglýsingar en Magnús er tilnefndur í stjórn af Orkuveitu Reykjavíkur. Með þessu er stjórn Orku náttúrunnar því skipuð stjórnarformanninum Hildigunni Thorsteinsson, Elísabetu Hjaltadóttur, Hólmfríði Sigurðardóttur, Magnúsi Má Einarssyni og Tómasi Ingasyni.

Stiklað er á stóru um ferla þeirra Tómasar og Magnúsar í orðsendingu frá Orku náttúrunnar vegna málsins. Þar segir m.a. að Tómas hafi starfað sem framkvæmdastjóri viðskipta- og stafrænnar þróunar hjá Icelandair frá 2019, verið framkvæmdastjóri viðskiptasviðs WOW Air árið 2018 og gegnt stöðu forstöðumanns stafrænnar framtíðar hjá Arion banka á árunum 2016 – 2018.

Tómas útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2001, MSc gráðu í verkfræði frá MIT Sloan School of Management í Boston árið 2006 og síðar MBA gráðu árið 2012 frá sama skóla.

Magnús hefur starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur frá 2017, fyrst sem þjónustustjóri innkaupa en frá árinu 2019 sem forstöðumaður aðbúnaðar. Þar áður rak hann ferðaþjónustufyrirtækið Northern Destinations eða frá 2011-2017.

Magnús lauk MBA gráðu frá EMLYON Business School í Frakklandi árið 2011 og útskrifaðist með BSc gráðu í iðnaðverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2008. Þá nam hann frönsku við Sorbonne háskóla árið 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×