Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.
Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 22 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.
Pétur Pétursson skoraði 19 mörk í 17 leikjum með Skagamönnum sumarið 1978 og bætti þar með fimm ára met Hermanns Gunnarssonar.
Hermann Gunnarsson hafði átt metið síðan 1973 þegar hann skoraði 17 mörk í 13 leikjum með Valsliðinu. Hermann skoraði þá nákvæmlega helming marka Valsmanna. Hermann hafði þá slegið tólf ára met KR-ingsins Þórólfs Beck sem skoraði 16 mörk sumarið 1961.
Pétur jafnaði markamet Hermanns Gunnarssonar 12. ágúst með því að skora tvisvar á móti Víkingum í 5-0 sigri upp á Akranesi.
Sjö dögum síðar átti Pétur markametið einn þegar hann skoraði tvö mörk í 2-2 jafntefli í útileik í Keflavík.
Pétur var þá kominn með 19 mörk eftir fimmtán leiki en þessi leikur við Keflavík var í sextándu umferð. Pétur hafði misst af leik á móti Fram 10. júní vegna agabanns.
Bæði mörk Péturs í Keflavík komu í blálokin en Keflavík var 2-0 yfir þegar aðeins tvær mínútur voru eftir. Pétur skoraði líka ekki mörkin í búningi ÍA heldur í gömlum Keflvíkurbúningi.
Skagamenn gleymdu búningnum upp á Skaga og Keflvíkingar lánuðu þeim gamla búninga svo leikurinn gæti farið fram.
Pétur átti þarna eftir tvo leiki sem voru á móti ÍBV á heimavelli og á móti Val á útivelli. Pétur fékk því 180 mínútur til að skora tuttugasta markið en tókst það ekki.
Fyrsti meðlimurinn í nítján marka klúbbnum:
Pétur Pétursson, ÍA 1978
- 19 mörk í 17 leikjum
- 5 á heimavelli - 14 á útivelli
- 9 í fyrri hálfleik - 10 í seinni hálfeik
- 6 mörk i fyrri umferð - 13 mörk í seinni umferð
- 12 skot - 3 víti - 4 skallamörk
- 4 tvennur - 1 ferna
Á móti hverjum
- 3 mörk á móti efstu þremur liðunum
- 8 mörk á móti efri hluta
- 11 mörk á móti neðri hluta
- 3 mörk á móti falliðunum
Markahæstu mánuðir:
- 7 mörk í júlí
- 6 mörk í ágúst
- 5 mörk í júní
Flest mörk á móti einstökum liðum
- 4 mörk á móti KA
3 mörk á móti Keflavík - 3 mörk á móti Víkingi