William Bryan Jr., maðurinn sem tók upp atburðarásina þegar hinn 25 ára gamli Ahmaud Arbery var myrtur í Georgíuríki í febrúar síðastliðnum, hefur verið ákærður fyrir aðild að morðinu. Áður höfðu feðgarnir Gregory og Travis McMichael verið ákærðir fyrir morðið.
Þetta kemur fram á vef BBC.
Arbery hafði verið úti að skokka í bænum Brunswick þegar feðgarnir stoppuðu hann vegna gruns um að hann tengdist innbrotum á svæðinu. Sögðu þeir hann líkjast manni sem hafði verið grunaður um verknaðinn.
Málið komst í hámæli fyrr í mánuðinum þegar myndband af morðinu fór í dreifingu. Fram að því hafði það flakkað milli saksóknara innan ríkisins en tveir af þremur héraðssaksóknurum sögðu sig frá málinu vegna tengsla við Gregory McMichaels, sem er fyrrverandi lögregluþjónn. Málið fjaraði á endanum út og hafði fjölskyldan gefið upp alla von að réttlæti yrði náð fram í málinu þar til myndbandið komst í dreifingu.
Myndband af atvikinu birt á netinu fyrr í mánuðinum. Í því sést maður, sem sagður er Arbery, hlaupa eftir vegi og mætir svo pallbíl, sem feðgarnir eru sagðir hafa ekið. Maðurinn hleypur fram hjá bílnum en sést svo í átökum við annan mann sem heldur á byssu. Loks heyrist hleypt af skotum.
Guardian birtir hluta úr myndbandinu á vef sínum. Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan. Rétt er að vara lesendur við efni þess.