Selst hefur upp á Sumarhátíð Helga Björns í Háskólabíó. Tónleikunum, sem fara áttu fram í vor, var frestað til 28. ágústu vegna kórónuveirunnar. Það kom ekki í veg fyrir að seldist upp á tónleikana og hefur verið ákveðið að blása til aukatónleika laugardagskvöldið 29. ágúst að því er segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að samkomur í sumar verði takmarkaðar við tvö þúsund manns, út ágúst. Þá kemur fram í minnisblaði hans til ráðherra að jafnframt þurfi að viðhalda leiðbeiningum til einstaklinga varðandi nándarmörk, tveggja metra regluna.

Skipuleggjendur viðburða á Íslandi næstu vikur og mánuði klóra sér margir hverjir í kollinm þessa dagana varðandi framkvæmdir á þeim. Breytingar á samkomubanni taka gildi 4. maí og þá verður miðað við að ekki fleiri en fimmtíu safnist saman, en um leið virði tveggja metra regluna. Næstu tilslakana má vænta seint í maí.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði gefa auga leið að fimmtíu manna veislur gætu ekki farið fram í fimmtíu fermetra íbúðum. Íslendingar væru þó lausnamiðaðir. Hann sagðist jafnframt vonast til þess að Íslendingar gætu farið að kyssast og knúsast aftur í júlí. Allt með fyrirvörum þó.

Stjórnendur leikhúsa og kvikmyndahús sem fréttastofa hefur rætt við eru að velta málunum fyrir sér en engin plön eru komin varðandi breytingar strax 4. maí. Þegar horft er til lengri tíma velta stjórnendur meðal annars fyrir sér hversu hörð viðmiðin verða varðandi tveggja metra regluna. Stórar leikhússýningar standi varla undir sér ef aðeins má sitja í öðru hverju sæti svo dæmi sé tekið.
Greinilegt er að Helgi Björns og félagar treysta á að fólk geti setið hlið við hlið á tónleikunum í Háskólabíó í lok ágúst. Stóri salurinn í Háskólabíó tekur 970 manns í sæti. Til samanburðar tekur Eldborg rúmlega 1600 manns í sæti.