Erlent

Fyrsta dauðsfallið af völdum veirunnar í Noregi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Vísir/getty

Fyrsta dauðsfallið í Noregi af völdum kórónuveirunnar hefur verið staðfest. Þetta staðfestir Erna Solberg forsætisráðherra Noregs við norska ríkissjónvarpið NRK. Einstaklingurinn sem lést var eldri borgari og hafði verið lagður inn á háskólasjúkrahúsið í Ósló.

„Það er vegna þessa sem við grípum til svo róttækra aðgerða. Mörg okkar eru veik fyrir, viðkvæm og munu ekki þola þau alvarlegu veikindi sem þetta getur valdið hjá fólki,“ segir Solberg í samtali við NRK.

Norska ríkisstjórnin kynnti í dag nýjar og hertar aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Allir þeir sem hafa ferðast utan Norðurlandanna þurfa að fara í sóttkví við komuna til Noregs og þá verður skólum á öllum stigum lokað.

Nýju tilmælin ná til allra þeirra sem hafa ferðast utan Norðurlandanna eftir 27. febrúar. Þeim er sagt að gangast undir fjórtán daga sóttkví eftir heimkomu til Noregs. Þá hvetja stjórnvöld almenning til þess að forðast óþarfa ferðalög.

Fyrsta dauðsfallið í Svíþjóð af völdum kórónuveirunnar var staðfest í gær. Um var að ræða fyrsta dauðsfallið vegna veirunnar á Norðurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×